Körfuknattleiksdómarafélag Íslands (KKDÍ) fagnar 50 ára afmæli sínu á árinu. Af því tilefni hefur félagið boðið Crawford til landsins og hefur sá bandaríski þekkst boðið.
„Það að fá Crawford á haustfund okkar körfuknattleiksdómara hefur gríðarmikla þýðingu þrátt fyrir þá staðreynd að NBA sé með annað regluverk en FIBA," segir Jón Bender formaður KKDÍ.
Íslenskir körfuboltadómarar funda á hverju hausti og leggja línurnar fyrir komandi vetur. Fundurinn fer fram helgina 12.-14. september en auk Crawford munu Zsolt Hartyani hjá Evrópska körfuknattleikssambandinu og Kristinn Óskarsson alþjóðakörfuboltadómari flytja erindi.

„Heimsókn hans er álíka hvalreki og fyrir knattspyrnudómara að fá Pierluigi Collina í heimsókn eða körfuknattleiksþjálfara að fá Phil Jackson í heimsókn," segir Jón. Hann er viss um að heimsókn Crawford muni ekki aðeins skila miklu til starfandi körfuknattleiksdómara heldur muni hún einnig vekja áhuga á íþróttinni og dómgæslu almennt.

„Zsolt mun koma hingað til lands beint frá Evrópukeppninni í Slóveníu þar sem hann verður við störf sem eftirlitsdómari," segir Jón sem þakkar KKÍ og FIBA Europe fyrir stuðninginn sem geri dómarafélaginu kleift að halda veglega upp á afmælið.