„Þeir eru mjög erfiðir viðureignar, það verður að segjast og þeir spila skemmtilegan bolta. Þeir eru ekki stærstir og sterkastir en eru gríðarlega teknískir en við náðum að halda haus í 60 mínútur og það þarf gegn svona liði. Við náðum að keyra hraðann upp í seinni hálfleik og það gerði gæfu muninn," sagði Aron Pálmarsson sem skoraði 9 mörk fyrir Ísland gegn Slóveníu í dag.
„Sóknarleikurinn var mjög góður og mér fannst allir spila vel sóknarlega. Það vantaði aðeins upp á vörn og markvörslu en sóknarleikur og þetta annað, þriðja tempó í seinni hálfleik sem gerði gæfumuninn.
„Mér fannst við ekki byrja leikinn nógu vel. Við gerðum tæknifeila í sókninni og mér fannst þeir skora eftir okkar mistök í fyrri hálfleik. Við köstum í hendurnar á þeim. Það er kjánalegt en við náðum að bæta það í seinni hálfleik og vorum öruggari í okkar aðgerðum, sagði Aron sem var að vonum mjög sáttur við að tryggja sætið á Evrópumeistaramótinu í Danmörku.
