Bandaríska skíðakonan Lindsey Vonn, besta skíðakona heims undanfarin ár, fékk slæma byltu í keppni í stórsvigi á fyrsta degi Heimsmeistarakeppnin í Alpagreinum í dag. Vonn var í kjölfarið flutt á sjúkrahús í þyrlu.
Vonn meiddist á hægra hné við fallið og heyrðist öskra af sársauka á eftir. Keppni hafði tafist um þrjá og hálfan tíma vegna slæms skyggnis þegar Vonn fór í brautina og einhverjar efasemdir voru um réttmæti þess að hefja keppnina yfir höfuð. Keppni var samt haldið áfram þrátt fyrir slysið.
Heimsmeistarakeppnin fer að þessu sinni fram í Schladming í Austurríki en keppnin fer fram á tveggja ára fresti. Vonn vann stórsvigskeppnina á HM 2009 í Val d'Isère í Frakklandi en endaði í sjöunda sæti í stórsviginu í Garmisch-Partenkirchen fyrir tveimur árum.
Lindsey Vonn hefur unnið heimsbikarinn á skíðum undanfarin fjögur ár og vann alls fjóra titla á síðasta ári, í stórsvigi, bruni, tvíkeppni og samanlögðu. Hún vann einnig heimsbikarinn í samanlögðu þrjú ár í röð frá 2008 til 2010 og hefur alls unnið sextán titla í Heimsbikarnum á ferlinum.
Lindsey Vonn vakti líka heimsathygli í október í fyrra þegar hún vildi fá að keppa við karla í bruni en Alþjóðaskíðasambandið leyfði henni á endanum ekki að vera með.
