LeBron James, leikmaður meistaraliðs Miami Heat, er vinsælasti leikmaður NBA-deildarinnar ef marka má sölutölur á keppnistreyjum frá því í apríl á þessu ári fram til dagsins í dag. James var í fjórða sæti á þessum lista í apríl en vinsældir hans hafa aukist eftir að Miami Heat tryggði sér meistaratitilinn sl. vor og James var lykilmaður í bandaríska landsliðinu sem tryggði sér gullverðlaunin á Ólympíuleikunum í London í sumar.
James var síðasta vor ennfremur kosinn besti leikmaður NBA-deildarinnar í þriðja sinn á síðustu fjórum leiktíðum.
New York Knicks er „heitasta" liðið á þessum lista en keppnistreyjur liðsins hafa ekki verið í efsta sæti sölulistans frá árinu 2004.
Þetta er í fyrsta sinn sem Russel Westbrook hjá Oklahoma City Thunder kemst á listann yfir söluhæstu keppnistreyjurnar. Rajon Rondo og Chris Paul fara báðir upp um fjögur sæti og Lakers er eina liðið sem á þrjá leikmenn á topp-15 listanum.
Derrick Rose var í efsta sæti listans í apríl. Athygli vekur að vinsældir Jeremy Lin hafa minnkað gríðarlega eftir að hann fór til Houston. Keppnistreyja Lins var í öðru sæti á þessum lista í apríl þegar hann var leikmaður NY Knicks en hann er ekki á topp-15 listanum í dag.
