Skoðun

Ari Trausti er traustsins verður

Brynja Tomer skrifar
„Mikið erum við Íslendingar lánsöm þjóð," hugsaði ég þegar ég sá tilkynningu um að Ari Trausti Guðmundsson hygðist bjóða sig fram til forseta.

Sjálf hafði ég kynnst honum lítillega fyrir mörgum árum, er hann miðlaði Ítölum af reynslu sinni og þekkingu í tengslum við sýningu og útgáfu bókar um Ísland. Allt samstarf við Ara Trausta var eins og best varð á kosið, allt sem hann sagði stóðst eins og stafur á bók og ítölsku menninga- og menntamálayfirvöldin voru ákaflega ánægð með samskiptin og kynnin af honum. Fannst hann traustur, greindur og kúltíveraður.

Áhugi og virðing Ara Trausta fyrir náttúrunni skiptir miklu máli, sem og innsæi og þekking á ólíkum menningarheimum. Það er kostur að forseti Íslands láti sér annt um náttúruna, ekki eingöngu þá íslensku, heldur móður náttúru í öllu sínu veldi.

Mér finnst kostur að hann skuli ekki tengjast pólitík í hefðbundnum skilningi þess orðs og sérstaklega er ég hrifin af því hversu hreinn og beinn hann er. Hann kemur einfaldlega til dyranna eins og hann er klæddur. Ég veit að sátt getur skapast um hann sem forseta þjóðarinnar.

Hvaða Íslendingur sem er getur verið stoltur af forseta sem talar fimm tungumál reiprennandi, að ekki sé talað um þá yfirgripsmiklu og víðtæku þekkingu sem Ari Trausti býr yfir.

Ég er steinhissa á því að skoðanakannanir skuli ekki sýna meira fylgi við þennan glæsilega frambjóðanda og hvet menn til að horfa á kynningarþætti á RÚV-vefnum, þar sem frambjóðendur leggja spilin á borðið.

Mér finnst við lánsöm þjóð að eiga þess kost að eignast forseta eins og Ara Trausta Guðmundsson.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×