Handbolti

Eintóm þvæla að ég eigi að vera jóker

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aron (númer 24) fagnar hér með félögum sínum í Kiel.
Aron (númer 24) fagnar hér með félögum sínum í Kiel. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Íslenska landsliðið náði sér ekki á strik á Evrópumótinu í Serbíu í janúar og hafnaði í 10. sæti. Liðið var gagnrýnt og meðal annars lét Sigurður Bjarnason, fyrrum landsliðsmaður og þáverandi sérfræðingur RÚV í EM-stofunni, í ljós þá skoðun sína að ábyrgð Arons í liðinu væri of mikil. Að hans mati ætti Aron að vera í hlutverki jókers. Aron segist hafa heyrt af gagnrýni Sigurðar en vera langt frá því að vera sammála.

„Ég er búinn að vera þrjú ár úti í Þýskalandi hjá besta liði í heimi og er kominn með stórt hlutverk í liðinu. Þetta er eiginlega eintóm þvæla hjá honum og sýnir hvað hann veit lítið um þetta. Svona menn eiga ekki að vera einhverjir spekingar og segja þjóðinni til," segir Aron og minnir á að hann sé enginn nýliði í landsliðinu.

„Ég er auðvitað bara 22 ára en með slatta af reynslu á bakinu eftir þessi fjögur ár með landsliðinu. Það er eitthvað rangt við það ef ég á að taka næstu fjögur til fimm árin í að vera jókerinn í liðinu," segir Aron og minnir á ábyrgð sérfræðinga í sjónvarpi og öðrum miðlum.

„Hann fattar ekki að allir hlusta á hvað hann segir enda er hann fenginn í settið til að vera spekingur. Þetta pirraði mig ekkert því ég veit betur sjálfur en þetta var eintóm þvæla," segir Aron.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×