Alþjóða skíðasambandið, FIS, hefur hafnað beiðni bestu skíðakonu heims, Lindsey Vonn, um að fá að taka þátt í heimsbikarmóti hjá körlunum. Lindsey Vonn vildi fá að keppa í bruni karla í Lake Louise í Kanada 24. nóvember næstkomandi.
„Þetta er mjög skýrt. Það er ástæða fyrir því að þetta heitir heimsbikarkeppni karla og heimsbikarkeppni kvenna," sagði Sarah Lewis framkvæmdastjóri FIS.
Lindsey Vonn hefur unnið 9 af 26 heimsbikarsigrum sínum í bruni á brautinni í Lake Louise en hún sendi inn beiðnina í byrjun október. Stjórn FIS hittist í Sviss í gær og tók málið fyrir með fyrrnefndri niðurstöðu.
Lindsey Vonn er fjórfaldur heimsmeistari í samanlögðu og vann 4 af 6 heimsbikartitlum kvenna á síðasta tímabili. Hún hefur alls unnið sextán heimsmeistaratitla frá árinu 2008.
