Chantel Nicole Jones, markvörður Íslandsmeistara Þór/KA, var valin besti leikmaður Pepsi-deildar kvenna af leikmönnum deildarinnar. Valið var tilkynnt í sérstakri athöfn í Silfurbergi í Hörpu í kvöld en hátíðin var einnig í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Chantel Nicole Jones er 24 ára og kemur frá Bandaríkjunum en hún var á sínu fyrsta tímabili með Akureyrarliðinu. Jones fékk á sig fæst mörk allra aðalmarkvarða Pepsi-deildarinnar eða aðeins 16 í 18 leikjum.
Jones spilaði með University of Virginia í bandaríska háskólaboltanum áður en hún kom til Þór/KA og setti nýtt met í að halda marki sínu hreinu en engin kona hefur náð því oftar á ferli sínum í bandaríska háskólaboltanum.
Jones var lykilmaður á bak við frábæran árangur Þór/KA í sumar þar sem að norðanstúlkur unnu fyrsta Íslandsmeistaratitilinn í sögu kvennaliða Akureyrarfélaganna. Hún hélt markinu hreinu í sjö leikjum og sá oft til þess að Þór/KA-liðið landaði dýrmætum stigum í jöfnum leikjum.
