Sport

Marray og Murray eru hetjur Breta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Marray ásamt keppnisfélaga sínum.
Marray ásamt keppnisfélaga sínum. Nordic Photos / Getty Images
Andy Murray verður á morgun fyrsti Bretinn í 74 ár til að keppa til úrslita í einliðaleik karla á Wimbledon-mótinu í tennis. En landi hans, Jonny Marray, komst einnig í sögubækurnar.

Marray keppir í dag til úrslita í tvíliðaleik karla ásamt Dananum Freddie Nielsen. Þeir félagar höfðu betur gegn bandarísku tvíburunum Mike og Bob Bryan í undanúrslitum en tvíburarnir hafa verið illviðráðanlegir í tennisheiminum síðastliðin ár.

Marray varð þar með fyrsti Bretinn í 52 ár til að komast í úrslitaviðureign í tvíliðaleik karla á Wimbledon-mótinu.

Ef þeir Marray og Nielsen vinna í dag verður sá fyrrnefndi fyrsti Bretinn til að vinna sigur í þessum flokki síðan 1936. Þeir mæta þeim Robert Lindstedt frá Svíþjóð og Horia Tecau frá Rúmeníu í úrslitaleiknum í dag.

Þess má geta að þetta sama ár, 1936, vann Bretinn Fred Perry sigur í einliðaleik karla og hefur engum Breta tekist að leika það eftir síðan þá. Murray fær tækifæri til þess á morgun er hann mætir Roger Federer í úrslitaleik einliðaleiks karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×