Brian Windhorst á ESPN hefur heimildir fyrir því að Ray Allen, leikmaður Boston Celtics, hafi áhuga á því að spila með Miami Heat á næsta NBA-tímabili. Allen setur það víst ekki fyrir sig að þarna séu erkifjendurnir á ferðinni sem hafa slegið Boston Celtics út úr úrslitakeppninni undanfarin tvö ár.
Það verða væntanlega peningamálin sem á endanum ráða því hvort Ray Allen gerist leikmaður Miami Heat en óvíst er hvort að hann sættist á 3 milljón dollara árslaun sem er það mesta sem Miami getur boðið honum.
Önnur félög í NBA-deildinni geta væntanlega boðið honum betri samning en í Miami er líklega einn besti möguleikinn fyrir hann að vinna meistaratitil.
Ray Allen verður 37 ára gamall í júlí en hann hefur spilaði í NBA-deildinni frá árinu 1996. Allen kom til Boston Celtics árið 2007 og vann sinn fyrsta og eina titil með liðinu 2008.
Ray Allen hefur skorað 2718 þriggja stiga körfur í NBA-deildinni sem er það mesta í sögunni en hann sló þriggja stiga met Reggie Miller í febrúar 2011.
Ray Allen glímdi við meiðsli á þessu tímabili en var með 14,2 stig í leik í deildarkeppninni og 10,7 stig í leik í úrslitakeppninin. Hann hækkaði stigaskorið sitt upp í 11,9 í úrslitum Austurdeildarinnar á móti Miami.
Körfubolti