Bikarmeistarar Vals eru komnar í átta liða úrslit Borgunarbikars kvenna í knattspyrnu eftir 7-0 sigur á 1. deildarliði Hattar frá Egilsstöðum.
Valskonur eru annað liðið til þess að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum keppninnar. Breiðablik lagði ÍBV í fyrsta leik sextán liða úrslitanna í sprennuþrungnum leik í Eyjum í gær eftir vítaspyrnukeppni.
Valskonur leiddu 2-0 á Vilhjálmsvelli í hálfleik. Bikarmeistararnir sýndu styrk sinn í síðari hálfleik og bættu við fimm mörkum.
Mörk Valskvenna skoruðu Hildur Antonsdóttir (2), Svava Rós Guðmundsdóttir, Dóra María Lárusdóttir, Elín Metta Jensen, Dagný Brynjarsdóttir og Rakel Logadóttir úr víti.
