LeBron James átti ekkert venjulegt kvöld í gær þegar Miami Heat tryggði sér oddaleik á móti Boston Celtics með 19 stiga stórsigri í Boston, 98-79, en tap hefði þýtt sumarfrí fyrir James og félaga og aurskriðu af harðri gagnrýni á James sjálfan.
LeBron James skoraði 30 stig í fyrri hálfleik og endaði leikinn með 45 stig, 15 fráköst og 5 stoðsendingar en það hefur enginn skorað meira í einum leik í úrslitakeppninni í ár.
Það þarf að fara 48 ár aftur í tímann til að finna aðra eins frammistöðu í úrslitakeppni NBA-deildarinnar og þá eru þær líka upptaldar. LeBron komst nefnilega í tveggja manna hóp með hinum rosalega Wilt Chamberlain.
Wilt Chamberlain var með 50 stig, 15 fráköst og 6 stoðsendingar með San Francisco Warriors í sigri á St. Louis Hawks í úrslitakeppninni árið 1964.
LeBron James er með 30,8 stig, 9,5 fráköst og 5,3 stoðsendingar að meðaltali í úrslitakeppninni en í einvíginu á móti Boston er hann með 34,0 stig, 10,8 fráköst og 4,2 stoðsendingar að meðaltali í sex leikjum. Miami þarf nú á öðrum stórleik að halda frá honum í oddaleiknum annað kvöld.
Körfubolti