Kobe Bryant var allt í öllu í sóknarleik LA Lakers í 104-100 sigri liðsins gegn Denver í átta liða úrslitum Vesturdeildarinnar í NBA deildinni í körfuknattleik í nótt. Lakers er 2-0 yfir en fjóra sigurleiki þarf til að komast í undanúrslit Vesturdeildarinnar. Andrew Bynum var einnig gríðarlega sterkur og skoraði hann 27 stig og tók 9 fráköst fyrir Lakers.
Pau Gasol skoraði 13 stig, tók 10 fráköst og gaf 5 stoðsendingar fyrir Lakers en liðið hefur aldrei lent undir gegn Denver í fyrstu tveimur leikjunum. Ty Lawson skoraði 25 stig fyrir Denver. Þriðji leikurinn fer fram á föstudaginn í Denver en þetta var níundi tapleikur Denver í röð á útivelli í úrslitakeppni.
Denver gerði góða atlögu að Lakers sem var með 19 stiga forskot í þriðja leikhluta en munurinn var aðeins fjögur stig þegar 3 mínútur voru eftir. Leikstjórnandinn Ramon Sessions skoraði fjögur stig á síðustu mínútu leiksins fyrir Lakers en hann skoraði alls 14 stig. Bryant tryggði sigurinn með vítaskotum 9,4 sekúndum fyrir leikslok.
Kenneth Faried skoraði 14 stig fyrir Denver og tók 10 fráköst, Danilo Gallinari og Corey Brewer skoruðu 13 stig hvor fyrir Denver.
Körfubolti