Handbolti

Ágúst ætlar að nýta tímann vel út í Póllandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birna Berg Haraldsdóttir spilar sína fyrstu landsleiki í Póllandi.
Birna Berg Haraldsdóttir spilar sína fyrstu landsleiki í Póllandi. Mydn/Vilhelm
Íslenska kvennalandsliðið er komið til Póllands, þar sem stelpurnar taka þátt í æfingamóti. Liðið mætir Hollandi í dag og spilar síðan einnig við Pólland og Tékkland um helgina.

„Það er frábært að komast á svona mót og spila á móti svona sterkum þjóðum. Við erum búin að nýta tímann vel og ætlum að gera það enn betur á komandi dögum. Vonandi náum við fínum úrslitum en höfuðáherslan er að hreyfa aðeins liðið, skoða leikmenn og reyna að vinna með okkar leikskipulag," sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari íslenska liðsins.

„Við höfum æft tvisvar á dag við mjög fínar aðstæður í Póllandi og erum síðan að fara að spila við sterka andstæðinga," segir Ágúst, en hann leggur áherslu á að horfa ekki of langt. Liðið er þar með að hefja undirbúning sinn fyrir undankeppni EM sem hefst í október, sem og heimsmeistaramótið í Brasilíu sem fer fram í desember.

„Það er gríðarlega mikilvægt að við höldum okkur á jörðinni og einbeitum okkur að næsta verkefni, sem er mjög mikilvægir leikir í Evrópukeppninni. Við erum þar í riðli með Sviss, Úkraínu og Spáni og það fara tvö lið áfram. Við eigum fína möguleika á því að komast áfram en þurfum þá að halda rétt á spilunum. Það er gríðarlega mikilvægt að vera einbeitt og taka bara eitt skref í einu," segir Ágúst, sem er án lykilmanna í mótinu í Póllandi.

„Anna Úrsúla (Guðmundsdóttir) kemur til móts við hópinn í kvöld (í gær) og við verðum að sjá til hversu mikið hún getur verið með því hún er búin að vera veik. Rakel (Dögg Bragadóttir, fyrirliði) er enn þá meidd og ég reikna ekki með henni í neinum leikjanna nema kannski hugsanlega í síðasta leiknum. Hún verður ekki með á morgun og á laugardaginn.

Rut (Jónsdóttir) meiddist í leik með Tvis Holstebro tveimur dögum áður en við fórum út. Hún er heldur ekki hérna. Liðið er því breytt og það er um að gera að nýta þessa leiki í að gefa öðrum tækifæri og skoða fleiri leikmenn," segir Ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×