Anna Fenninger frá Austurríki fagnaði heimsmeistaratitlinum í alpatvíkeppni kvenna í dag á HM sem fram fer í Garmisch-Partenkirchen í Þýskalandi. Fenninger náði aðeins fjórða bersta tímanum í svigkeppninni en góður árangur hennar í brunkeppninni tryggði sigurinn og fyrstu gullverðlaun hennar á ferlinum.
Fenninger var 0,09 sekúndum á undan Tine Maze frá Slóveníu sem fékk silfurverðlaun og Anja Pärson frá Svíþjóð varð þriðja 0,27 sekúndum á eftir Fenninger.
Elisabeth Görgl frá Austurríki var í efsta sæti eftir brunkeppnina en hún náði sér ekki á strik í sviginu og endaði í fimmta sæti. Görgl sigraði í risasviginu á HM sem fram fór á þriðjudaginn. Görgl vann til bronsverðlauna í þessari grein á síðasta HM.
Pärson ætlar sér að ná í áttunda heimsmeistaratitilinn á þessu heimsmeistaramóti en hún var líkleg til afreka í alpatvíkeppninni. Pärson náði aðeins 10. sætinu í risasviginu á þriðjudaginn sem var langt frá hennar markmiðum.
Pärson, sem er 29 ára, náði ekki á verðlaunapall á HM í Val D'Isere fyrir tveimur árum var 9. sætið í svigi. Hún fékk gullverðlaun á fjórum heimsmeistaramótum í röð á tímabilinu 2001 - 2007.
Á HM 2005 fékk hún tvenn gullverðlaun og hún gerði enn betur árið 2007 þar sem hún fékk þrenn gullverðlaun.
Á morgun, laugardag, er einn af hápunktum HM þar sem að úrslitin í bruni karla ráðast.