Handbolti

Stelpurnar töpuðu með fimm mörkum á Spáni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta tapaði með fimm mörkum fyrir Spáni, 27-22 í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2012 en leikurinn fór fram í Madríd á Spáni. Íslenska liðið lenti mest níu mörkum undir en minnkaði muninn í lokin með góðum endaspretti.

Hanna Guðrún Stefánsdóttir var markahæst með sex mörk, hin unga Birna Berg Haraldsdóttir var með fimm mörk og Stella Sigurðardóttir skoraði fjögur mörk.

Spænska liðið labbaði hvað eftir annað í gegnum íslensku vörnina á sama tíma og íslenska liðinu gegn illa gegn framliggjandi vörn spænska liðsins. Frönsku dómararnir voru heldur ekki að hjálpa mikið til enda fuku íslensku stelpurnar mikið útaf í leiknum.

Íslenska lenti strax undir í upphafi leiks en slæmur kafli um miðjan hálfleikinn þýddi að spænska liðið komst í 10-5. Íslenska liðið minnkaði muninn aftur niður í þrjú mörk en Spánn var 13-9 yfir í hálfleik.

Spænska liðið skoraði tvö fyrstu mörkin í seinni hálfleik og komst sex mörkum yfir, 15-9, og bætti svo um betur með því að skora fimm mörk í röð og ná níu marka forskoti, 20-11. Ágúst tók þá leikhlé enda var spænska liðið búið að skora úr 20 af 23 skotum sínum.

Íslenska liðið náði að laga stöðuna með því að skora 7 mörk gegn 2 og minnka muninn í 24-20 en þá voru rúmar sex mínútur eftir af leiknum.  Spænska liðið tók þá aftur við sér og vann að lokum með fimm mörkum eftir að Ólöf Kolbrún Ragnarsdóttir varði víti í lokin.

Íslenska liðið fær Úkraínu í heimsókn í öðrum leik sínum sem fer fram í Laugardalshöllinni á sunnudaginn kemur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×