Talsmaður ferðaþjónustunnar segir að viðvarandi lokun flugvalla geti haft alvarleg áhrif á greinina. Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að ferðaþjónustunni hafi brugðið í brún þegar gosið hófst í gær, enda stutt síðan greinin stóð í stórræðum þegar gaus í Eyjafjallajökli í fyrra. Hún segir hins vegar að bæði stjórnvöld og Íslandsstofa hafi brugðist hratt við að koma upplýsingum til alþjóðlegra fjölmiðla.
„Það er mjög mikilvægt að það komist réttar upplýsingar á framfæri. Það má segja að eitt af stóru verkefnunum okkar í fyrra hafi verið að koma réttum upplýsingum til útlanda, fjölmiðla og ferðamanna," segir Erna.
Aðspurð hvaða áhrif gosið geti haft á ferðaþjónustuna segir Erna. „Það getur haft mjög slæm áhrif á ferðaþjónustuna. Það gefur auga leið."
Þá segir Erna: „Við lærðum ýmislegt í fyrra. Þannig að við auðvitað búum að því."
Innlent