
Frelsi fylgir ábyrgð
Aðdragandi og kynning
Líklega hafa fá lög sem sett hafa verið á undanförnum árum átt jafn langan aðdraganda og hlotið eins góðan undirbúning,. Í raun má segja undirbúningur hafi hafist haustið 2004 þegar þáverandi menntamálaráðherra skipaði þverpólitíska nefnd stjórnmálamanna til að athuga ýmis atriði er lúta að íslensku fjölmiðlaumhverfi. Nefndin skilaði skýrslu til ráðherra vorið 2005 og í framhaldinu var síðan lagt fram frumvarp sem byggðist á tillögum hennar. Í lok árs 2007 samþykkti Evrópuþingið og -ráðið nýja hljóð- og myndmiðlunartilskipun sem verður að leiða í lög hér á landi á grundvelli EES-samningsins og eru í henni breytingar á þeirri tilskipun sem útvarpslögin frá árinu 2000 byggðust á.
Vinna við gerð þess frumvarps, sem nú er orðið að lögum, hófst í byrjun árs 2008 og var þá ákveðið að byggja lögin á þessu tvennu. Síðar var ákveðið að láta frumvarpið taka til allra fjölmiðla vegna þess að gildandi prentlög og útvarpslög hafa ekki fylgt þeim tæknibreytingum sem orðið hafa, m.a. með tilkomu netsins. Þá þótti rétt að skýra og bæta réttarstöðu blaða- og fréttamanna, t.d. með því að samræma ábyrgðarreglur milli ólíkra miðla. Við gerð frumvarpsins var löggjöf nágrannaríkja okkar, tilmæli og leiðbeinandi reglur Evrópuráðsins og Evrópusambandsins athugaðar og hafðar til hliðsjónar. Haustið 2009 þegar frumvarpið var fullbúið var það sett í almenna kynningu á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins þar sem allir gátu gert athugasemdir við það. Tekið var tillit til margra þeirra athugasemda sem bárust áður en frumvarpið var lagt fram.
Upphaflega var mælt fyrir frumvarpinu á vorþingi 2010 og var það tekið til umfjöllunar í menntamálanefnd og leitað umsagna frá ýmsum aðilum. Gerði nefndin ýmsar breytingar á frumvarpinu, sem ekki gafst tími til að ljúka áður en þingi var slitið. Af því leiddi að frumvarpið var lagt fram að nýju á haustþingi 2010 með þeim breytingum sem menntamálanefnd Alþingis hafði gert. Að lokinni ítarlegri og vandaðri meðferð nefndarinnar samþykkti Alþingi frumvarpið sem lög þann 15. apríl síðastliðinn.
Hvers vegna lög um fjölmiðla?
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er hlutverk fjölmiðla skilgreint með skýrum hætti en þar segir að fjölmiðlar leiki „lykilhlutverk í lýðræðissamfélagi með því að upplýsa almenning, vera vettvangur þjóðfélagsumræðu og veita aðhald þeim öflum sem vinna gegn almannahag." Í fjölmiðlalögunum er gengið út frá þessari skilgreiningu. Auk tjáningarfrelsis, sem allir þegnar í lýðræðisríkjum njóta, eru fjölmiðlum veitt tiltekin réttindi umfram aðra, t.d. er varðar vernd heimildarmanna. Í ljósi þeirrar sérstöðu og áhrifavalds, sem fjölmiðlar í lýðræðisríkjum hafa, er litið svo á að þeir hafi ríkum skyldum að gegna gagnvart almenningi. Í evrópskum lýðræðisríkjum er því almennt talið að fjölmiðlar séu af þessum sökum ólíkir öðrum fyrirtækjum og því sé eðlilegt að um þá gildi annað regluverk en um hefðbundinn rekstur.
Menn líta þó fjölmiðla ólíkum augum og eru sumir þeirrar skoðunar að þeir séu ekki á nokkurn hátt frábrugðnir öðrum fyrirtækjum. Oft er í því samhengi vitnað til ummæla Marks Fowler, fyrrverandi formanns Fjölmiðlanefndar Bandaríkjanna, sem taldi að sjónvarp væri eins og hvert annað rafmagnstæki - væri brauðrist með myndum! Afstaða af þessu tagi til fjölmiðla er mun almennari í Bandaríkjunum en í Evrópu. Í nýjum í fjölmiðlalögum okkar er hið evrópska sjónarmið ríkjandi.
Réttindi fjölmiðlafólks tryggð
Eitt megin markmið nýrra fjölmiðlalaga er að skýra og bæta réttarumhverfi blaða- og fréttamanna. Sett voru ákvæði um vernd heimildarmanna, ábyrgðarreglur voru samræmdar fyrir hljóð- og myndmiðla, nýmiðla og prentmiðla. Jafnframt var sett ákvæði um sjálfstæði ritstjórna, þar sem tekið er til starfsskilyrða og starfshátta til að tryggja sjálfstæði blaða- og fréttamanna gagnvart eigendum auk skilyrða fyrir áminningum og brottrekstri blaða- og fréttamanna.
Við undirbúning lagafrumvarpsins var leitað upplýsinga um ábyrgðarreglur á hinum Norðurlöndunum og hvernig stjórnvaldssektum, fésektum og skaðabótakröfum er beitt gagnvart fjölmiðlum. Fulltrúar blaðamannasamtaka á Norðurlöndunum veittu fúslega upplýsingar um ýmis mál auk þess sem lög nágrannaríkja okkar voru höfð til hliðsjónar við frumvarpssmíðina.
Markmiðið með fyrrgreindum ákvæðum eru að draga úr svokölluðum kælingaráhrifum, sem birtast í því að blaða- og fréttamenn hika við að taka á viðkvæmum málum vegna þess að það getur komið sér illa fyrir eigendur þeirra eða aðra hagsmunaaðila, t.d auglýsendur. Lögin eiga að gera fjölmiðlafólki auðveldara með að vernda heimildarmenn sína, það verði ekki gert ábyrgt fyrir beinum tilvitnunum nafngreindra heimildarmanna í greinum sínum og dregið verði úr líkum á tilefnislausum brottrekstri.
Eignarhald á fjölmiðlum og gagnsæi
Í lögunum er kveðið á um að ávallt sé upplýst með gegnsæjum og aðgengilegum hætti fyrir almenning hvernig eignarhaldi fjölmiðla sé háttað. Þá var kveðið á um skipan þverpólitískrar nefndar með fulltrúum allra þingflokka, sem hefur það hlutverk að kanna samþjöppun á eignarhaldi á fjölmiðlamarkaði hér á landi og gera eftir atvikum tillögur um einhverjar skorður í þeim efnum. Er hún nú að störfum og á að skila tillögum í sumar.
Skráningarskylda fjölmiðla
Sá misskilningur hefur komið upp að nýju fjölmiðlalögin geri bloggsíður og almennar vefsíður skráningarskyldar. Hið rétta er að aðeins þær vefsíður teljast til fjölmiðla sem hafa sérstaka ritstjórn skv. skilgreiningu laganna og afar umfangsmiklum skýringum í greinargerð. Þær byggjast að nokkru leyti á skilgreiningum og túlkunum á tilskipun ESB sem innleidd er í fjölmiðlalögunum.
Skilgreiningar á ritstjórn ná einnig til prentmiðla og fjölmiðla á netinu. Gert er ráð fyrir að hugtakið ritstjórn sé túlkað þröngt því starfsemi einstaklings sem rekur vefsíðu getur aðeins í undantekningartilvikum talist fjölmiðill miðað við þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi, t.d. hvort viðkomandi hafi það að atvinnu að miðla og bera ábyrgð á ritstjórnarlegri skipan efnis og hvort megin tilgangur viðkomandi fyrirtækis eða einstaklings sé að miðla fjölmiðlaefni. Af þessu leiðir mikill meirihluti alls þess efnis sem miðlað er á vefnum fellur ekki undir hugtakið fjölmiðil. Þó verður að líta svo á að með breyttri fjölmiðlanotkun almennings verði að fella vefsíður, sem sannarlega geta talist fjölmiðlar, undir hugtakið þannig að þeir hljóti sömu réttindi og hafi sömu skyldur og prent- og ljósvakamiðlar.
Fjölmiðlanefnd og hlutverk hennar
Fyrir bankahrunið var sú skoðun almenn að fjármálafyrirtæki væru ekki frábrugðin öðrum fyrirtækjum og því væri sérstakt eftirlit með starfsemi þeirra ónauðsynlegt, jafnvel óæskilegt. Þessi afstaða er nú á undanhaldi enda flestum ljóst að fjármálafyrirtæki gegna lykilhlutverki í gangverki efnahagslífs hvers samfélags. Með sama hætti gegna fjölmiðlar lykilhlutverki í lýðræðisríkjum eins og hér hefur verið lýst. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er m.a. vikið að stöðu fjölmiðla og umfjöllun þeirra um fjármálamarkaðinn árin fyrir hrunið. Þar mælt með að komið verði á „faglegu eftirliti með fjölmiðlum sem hafi það að markmiði að tryggja að þeir ræki af ábyrgð hlutverk sitt í lýðræðisríki og verndi almannahagsmuni".
Samkvæmt fjölmiðlalögum er fjölmiðlanefnd ætlað að sjá um þetta eftirlit auk þess að framfylgja markmiðum laganna, þ.á m. um gagnsæi eignarhalds og að fjölmiðlar fari að lögum, t.d. um efni sem getur verið skaðlegt börnum eða um aðgreiningu auglýsinga og ritstjórnarefnis.
Fjölmiðlanefnd er sjálfstæð stjórnsýslunefnd og er því ekki hægt að kæra ákvarðanir hennar til ráðherra. Þetta fyrirkomulag er haft til að tryggja sjálfstæði hennar gagnvart framkvæmdavaldinu. Hér er því engin breyting frá því fyrirkomulagi sem verið hefur með útvarpsréttarnefnd, sem hefur eftirlitshlutverki að gegna gagnvart ljósvakamiðlum. Ákvörðunum hennar hefur ekki verið hægt að áfrýja til annars stjórnvalds. Breytingin felst hins vegar í því að fjölmiðlanefndin er fjölmennari auk þess sem hún mun hafa starfsfólk og er því fyrirkomulagi m.a. ætlað að auka sjálfstæði nefndarinnar. Útvarpsréttarnefndin heyrði beint undir ráðherra og öll stjórnsýsla hennar hefur farið fram í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þó að ekki sé hægt að skjóta úrskurðum fjölmiðlanefndar til annars stjórnvalds er ávallt hægt að fara með þá fyrir dómstóla. Nefndin verður skipuð fimm fulltrúum, tveimur tilnefndum af Hæstarétti, einum tilnefndum af Blaðamannafélagi Íslands, einum tilnefndum af samstarfsnefnd háskólastigsins og einum tilnefndum af mennta- og menningarmálaráðherra. Er þetta fyrirkomulag viðhaft til að tryggja sjálfstæði fjölmiðlanefndar með sem bestum hætti gagnvart pólitískum áhrifum.
Ég vek sérstaka athygli á því að mörg ákvæði í frumvarpinu eru beinlínis sett í þeim tilgangi að tryggja virkt tjáningarfrelsi og þar með opna umræðu og skoðanaskipti. Hafa verður í huga að flest þessara ákvæða hafa verið í lögum um árabil, án þess að þeim hafi verið framfylgt á virkan hátt. Er það æskilegt? Andstætt því sem margir virðast halda sýnir reynsla annarra ríkja að virkt eftirlit með starfsemi fjölmiðla tryggir betur tjáningarfrelsi og er til þess fallið auka traust almennings á fjölmiðlum.
Katrín Jakobsdóttir
Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra
Skoðun

Styrkleikar barna geta legið í öðru en að fá hæstu einkunnir
Anna Maria Jónsdóttir skrifar

Listin við að fara sér hægt
Heiðrún Lind Marteinsdóttir skrifar

Kosningar í stjórn Visku: Þitt atkvæði skiptir máli!
Eydís Inga Valsdóttir skrifar

Ábyrgð yfirvalda á innra mati á skólastarfi
Anna Greta Ólafsdóttir skrifar

Bjánarnir úti á landi
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson skrifar

Hvað kostar EES samningurinn þjóðina?
Sigurbjörn Svavarsson skrifar

En hvað með loftslagið?
Emma Soffía Elkjær Emilsdóttir,Eiríkur Hjálmarsson skrifar

Ráðherra og valdníðsla í hans nafni
Örn Pálmason skrifar

Betri nýting á tíma og fjármunum Reykjavíkurborgar 1/3
Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Er fótbolti að verða vélmennafótbolti?
Andri Hrafn Sigurðsson skrifar

Geðheilbrigðisþjónusta og fiskur – er einhver tenging?
Elín Ebba Ásmundsdóttir skrifar

Fjárfestum í hjúkrun
Ólafur Guðbjörn Skúlason skrifar

Tölum um endurhæfingu!
Laufey Elísabet Gissurardóttir,Steinunn Bergmann,Þóra Leósdóttir skrifar

Dýrafræði hlutabréfamarkaðarins
Baldur Thorlacius skrifar

Alvöru mamma
Anna Margrét Hrólfsdóttir skrifar

Í nafni skilvirkni – á kostnað menntunar
Simon Cramer Larsen skrifar

Var þetta planið í geðheilbrigðisþjónustu?
Berglind Sunna Bragadóttir skrifar

Ef þetta eru hægriöfgaskoðanir, þá er ég stoltur hægriöfgamaður
Davíð Bergmann skrifar

Heimsmet í sjálfhverfu
Friðrik Þór Friðriksson skrifar

Atvinnuleysisbætur sem hluti af velferðarkerfinu
Steinar Harðarson skrifar

Viska þarf að standa vörð um sérfræðinga á vinnumarkaði
Kristjana Mjöll Jónsdóttir Hjörvar skrifar

Hver ber ábyrgð á vanefndum Viðreisnar og Samfylkingar? Inga blessunin Sæland?
Ole Anton Bieltvedt skrifar

Í skugga kalda stríðsins: Svallið, smyglið og leyndarlífið á Miðnesheiði
Steinar Björgvinsson skrifar

Opið bréf til mennta- og barnamálaráðherra
Örn Pálmason skrifar

Tölum aðeins um einhverfu
Trausti Dagsson skrifar

Það sem sést, og það sem ekki sést
Eiríkur Ingi Magnússon skrifar

Hagræðing, aðhald og nýjar áherslur skila besta ársreikningi Kópavogsbæjar í 17 ár
Ásdís Kristjánsdóttir,Orri Hlöðversson skrifar

Gyðjur, góðgæti og gleðistundir um páskana
Jóhanna María Ægisdóttir skrifar

Eru markaðsforsendur fyrir óperu á Íslandi sterkari en margir halda?
Þóra Einarsdóttir skrifar

KSÍ og kvennaboltinn
Árni Guðmundsson skrifar