Aska frá gosinu Í Eyjafjallajökli hefur haft mikil áhrif á flugumferð í norðanverðri Evrópu. Flugvöllum í London, Heathrow, Gatwick og Stansted hefur verið lokað. Sama má segja um Belfast og Newcastle. Algert flugbann er nú í gildi í Noregi og hefur Gardemoen vellinum í Osló þar með verið lokað. Flugumferð yfir Norður-Svíþjóð hefur verið bönnuð frá því í nótt og búist er við að flugbannið verði stækkað í Svíþjóð þegar líður á morguninn og daginn.
Í Noregi er staðan því sú að öll flugumferð í landinu hefur lamast. Allir alþjóðaflugvellir Skotlands, í Aberdeen, Edinborg og Glasgow eru einnig lokaðir vegna öskunnar.
Raskanir orðið miklar á flugvöllunum í Manchester, Liverpool, Newcastle og Birmingham. Tvö stærstu lággjaldaflugfélög Evrópu, Ryanair og EasyJet hafa boðað seinkanir eða aflýsingar á mörgum leiðum og Japanska flugfélagið Nippon Airways seinkaði í morgun öllum evrópuflugum til þess að gera nýjar flugáætlanir.
Á Schiphol flugvelli í Amsterdam hefur þurft að aflýsa tuga ferða og þýska flugfélagið Lufthansa hefur þurft að aflýsa eða fresta fjölda ferða.
Þá hafa seinkanir orðið á flugferðum frá Evrópu til Bandaríkjanna vegna öskufallsins.
Vindáttin gerir það hinsvegar að verkum að ekki hefur þurft að loka á Keflavíkurflugvelli. Þar hefur hins vegar þurft að seinka ferðum til Norður Evrópu.