Skoðun

SI lýgur með tölum

Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, fór mikinn í sjónvarpsfréttum í vikunni og kvartaði undan því að opinberum starfsmönnum hefði fjölgað gríðarlega í kreppunni. Orra taldist til að 20 þúsund störf hefðu tapast á einkamarkaði, en í opinbera geiranum hefði þeim fjölgað um 3.500. Óljóst er hvað framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins gengur til með þessum talnaleik, í það minnsta er morgunljóst að þessum tölum sér hvergi stað í opinberum talnagögnum.

Staðreyndin er nefnilega sú að Hagstofan tekur ekki saman tölur um fjölda opinberra starfsmanna og því eru ekki til tölur um starfandi, þar sem vinnumarkaði er skipt upp í opinberan og einkamarkað. Það truflaði Orra þó ekki í að vitna í tölur Hagstofunnar.

Framkvæmdastjórinn fellur nefnilega í þann pytt að bera saman tvo ólíka hluti með talnagögnum og fá út þá niðurstöðu sem hentar hans málstað. Þar sem skilgeininguna hans vantar leggur hann saman atvinnugreinarnar opinbera stjórnsýslu, fræðslustarfsemi og heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Hann gefur sér að þetta séu allt opinberir starfsmenn og segir að árið 2008 hafi, réttilega, 51.300 samanlagt unnið í þessum greinum. Árið 2008 var hins vegar tekið í notkun nýtt flokkunarkerfi og ekki er lengur hægt að bera saman tölur frá fyrra flokkunarkerfi til þess sem notað er í dag. Á heimasíðu Hagstofunnar er útskýrt að um tvö mismunandi flokkunarkerfi sé að ræða. Til að bíta höfuðið af skömminni er um úrtakskönnun að ræða, ekki heildartalningu.

Með því að bera þessi tvö ósamanberalegu flokkunarkerfi tekst Orra Haukssyni að fá það út að opinberum starfsmönnum hafi fjölgað um 3.500, þegar reyndin er að þeim hefur fækkað. Óljóst er hve mikið, en þeim mun enn fækka samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi.

Vonandi er umgengni Samtaka iðnaðarins um allar tölur ekki jafn frjálsleg og þegar þeir þurfa að tala opinbera starfsmenn niður.




Skoðun

Sjá meira


×