Það varð ljóst um helgina hvaða sextán þjóðir verða í lokakeppni Evrópumóts kvennalandsliða í handbolta sem fer fram í Danmörku og Noregi 7. til 19. desember á þessu ári.
Íslenska kvennalandsliðið náði eins og kunnugt er sögulegum áfanga um helgina þegar stelpurnar tryggðu sér sæti í úrslitakeppni stórmóts í fyrsta sinn. Liðið endaði í 2. sæti í sínum riðli á eftir geysisterku liði Frakklands.
Íslensku stelpurnar eru ekki einu nýliðarnir á EM því Svartfjallaland var einnig að komast í lokakeppni EM í fyrsta sinn. Allar aðrar þjóðir í keppninni hafa mun meiri reynslu eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.
Það verður dregið í riðla í Óðinsvéum laugardaginn 5. júní og mun drátturinn fara fram í hálfleik á æfingalandsleik gestgjafana Dana og Norðmanna. Það verður dregið í fjóra fjögurra liða riðla þar sem þrjú efstu liðin komast síðan áfram í milliriðil.
Þjóðir í úrslitakeppni EM kvenna í handbolta 2010:
Danmörk (9 EM-keppnin)
Noregur (9)
Ungverjaland (9)
Frakkland (6)
Þýskaland (9)
Spánn (6)
Svartfjallaland (Nýliði)
Rússland (9)
Króatía (6)
Rúmenía (8)
Úkraína (9)
Ísland (Nýliði)
Slóvenía (4)
Holland (4)
Svíþjóð (7)
Serbía (3)

