Logi Gunnarsson mun spila í sænsku úrvalsdeildinni næsta vetur eins og félagar hans í landsliðinu Jakob Örn Sigurðarson, Hlynur Bæringsson og kannski Helgi Már Magnússon. Logi er búinn að gera tveggja ára samning við Solna Vikings en þetta kom fram á Karfan.is.
Logi gæti leikið við hlið Helga Más Magnússonar sem var í liði Solna Vikings í vetur en Helgi Már er ekki búinn að ganga frá sínum málum og því óvíst hvar hann mun spila í vetur.
Logi lék með franska liðinu Saint-Etienne BC á síðasta tímabili í frönsku C-deildinni þar sem hann var með 8,5 stig og 1,9 stoðsendingar að meðaltali í leik. Saint-Etienne endaði í ellefta sæti frönsku C-deildarinnar.
Þetta verður sjötta landið sem Logi spilar en hann hefur einnig leikið í Þýskalandi, á Spáni og í Finnlandi auk þess að spila með Njarðvíkingum á Íslandi.

