Skoðun

Að „þétta raðirnar“

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir skrifar
Þrátt fyrir ákall Íslendinga um samstöðu og ný vinnubrögð hefur ríkisstjórn Íslands mistekist að ná samstöðu í þinginu um nokkurn skapaðan hlut. Stífni og krafa um hörð vinstri sjónarmið ríkisstjórnarflokkana einkenna umræðurnar og úr verður argaþras, skortur á samráði, barnalegar yfirlýsingar og vandræðagangur.

Á tímum efnahagshamfara þarf að lágmarka innbyrðis átök stjórnmálaflokka á meðan náð er utan um brýnustu verkefnin. Til þess að það sé mögulegt þarf að einbeita sér að því að ná þverpólitískri samstöðu sem tryggir lausnir fyrir íbúa og samfélag. Slíkt vinnulag er við lýði í Reykjavíkurborg og hefur verið frá því að ófarirnar dundu yfir. Borgarfulltrúar hafa sett kraft í að leysa mál og standa sem einn maður í að tryggja velferð barna, mikilvægustu þjónustuþætti og öryggi íbúa. Borgarbúar finna að borginni er stýrt af festu og sanngirni.

Hinum megin við Vonarstrætið standa aftur á móti yfir átök innan ríkisstjórnarflokkana og milli allra flokka. Ýtrustu kröfur um vinstri áherslur sem leiða til endalausra deilna, svo sem gríðarlegar skattahækkanir, stopp framkvæmda í orkuiðnaði og smáskammtalækningar í lækkun útgjalda ríkissjóðs eru allt dæmi um vinnubrögð sem eiga ekki við þegar öllu máli skiptir að slökkva elda og koma málum áfram. Á meðan Alþingi logar í illdeilum bíða Íslendingar vonlitlir eftir lausnum fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.

Við lifum á óhefðbundnum tímum sem krefjast óhefðbundinna vinnubragða. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki enn skynjað þetta þrátt fyrir algeran ósigur í þjóðaratkvæðagreiðslu helgarinnar. Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, og Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, segja nú ítrekað að brýnt sé að „þétta raðir ríkisstjórnarflokkana". Þessar yfirlýsingar eru sorglegar og benda til þess að enn sé lagt af stað í vegferð ósamstöðu og átaka í stað þess að leita sátta og samstöðu allra flokka á Alþingi.

Höfundur er borgarfulltrúi.








Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×