Í nýrri haustlínu tískumerkisins Dereon, sem söngkonan Beyoncé rekur ásamt móður sinni, sést Beyoncé skarta leggingsbuxum sem eru ískyggilega líkar leggingsbuxum frá E-label.
Buxurnar sem um ræðir eru hönnun Ásgríms Más Friðrikssonar og eru svartar að lit og prýddar göddum að framanverðu. Fréttablaðið greindi frá því í lok nóvember í fyrra að söngkonan hafi einmitt keypt slíkar leggings í tískuversluninni TopShop í London og því þykir þetta skrítin tilviljun.
Innt eftir því hvort eigendur E-label ætli að höfða mál gegn söngkonunni segist Heba ekki geta sagt til um það að svo stöddu. „Ég var bara að heyra af þessu og því hefur engin ákvörðun verið tekin. Við þurfum að skoða buxurnar frá henni betur því samkvæmt lögum telst það ekki stuldur ef ákveðin mörg atriði eru frábrugðin upprunalegu hönnuninni,“ segir Heba og bætir við að þegar Beyoncé hafi keypt leggingsbuxurnar voru þær seldar í Edit deild TopShop sem selur hönnun lítilla og óþekktra hönnuða.
Aðspurð segir Heba þær ekki hafa skráð hönnun sína en telur að vegna fréttaflutnings bæði hér á landi og erlendis geti þær auðveldlega sannað sitt mál komi til þess. „En ef fólk vill kaupa upprunalegu buxurnar þá getur það kíkt til okkar á Laugavegi 27,“ segir Heba að lokum og hlær. -sm
