Fyrsti leikur einvígis Grindavíkur og ÍR í 8 liða úrslitum Iceland Express deildar karla hefst klukkan 16.00 í Röstinni í Grindavík. Grindavík endaði í 2. sæti en ÍR í því sjöunda líkt og þegar þeir slógu út KR-inga í átta liða úrslitunum í fyrra.
Þetta er fjórði leikur liðanna í vetur og hefur Grindavík unnið þá alla. Grindavík vann deildarleikina með 14 stigum í Grindavík (92-78) og með 9 stigum í Seljaskóla (98-89). Grindavík sló ÍR síðan út úr átta liða úrslitum Subway-bikarsins með því að vinna þá með 27 stiga mun í Grindavík (105-88) í janúar.
ÍR-ingar unnu síðustu fjóra útileiki í röð í deildinni en það reynir virkilega á þá sigurgöngu í dag þar sem Grindavík er búið að vinna alla þrettán heimaleiki sína á þessu tímabili.
Það eru aðeins sex dagar síðan þessi lið mættust í lokaumferð deildarinnar í Seljaskóla. Grindavíkingar hvíldu fyrirliða sinn Pál Axel Vilbergsson í þeim leik en unnu engu að síður nokkuð öruggan 9 stiga sigur, 98-89. Helgi Jónas Guðfinnson skoraði þá 24 stig fyrir Grindavík og hitti meðal annars úr 6 af 8 þriggja stiga skotum sínum.