Handbolti

Þórir byrjaði alveg eins og Marit Breivik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Norsku stelpurnar fögnuðu bronsinu sínu vel.
Norsku stelpurnar fögnuðu bronsinu sínu vel. Mynd/AP

Norðmenn eru nokkuð sáttir með árangur norska kvennalandsliðsins í handbolta þrátt fyrir að liðið hafi misst af sínum fyrsta úrslitaleik á stórmóti síðan á HM 2005. Þórir Hergeirsson, íslenski þjálfari liðsins, náði bronsverðlaunum með ungt lið og án nokkra af bestu handboltakonum heims.

„Við viljum vinna leiki og vinna úrslitaleiki um sæti," sagði Þórir eftir leikinn. „Miðað við þá stöðu sem við lentum í í haust þá er ég mjög stoltur af því að vinna brons," sagði fyrsti íslenski þjálfarinn til þess að vinna verðlaun á heimsmeistaramóti.

Þórir byrjaði alveg eins og fyrirrennari sinn, Marit Breivik, sem vann einnig brons á sínu fyrsta stórmóti með liðið sem var á EM í Þýskalandi árið 1994. Breivik vann ekki sitt fyrsta af sex stórmótagullum fyrr en fjórum árum seinna eða á EM í Hollandi 1998.

Marit Breivik þjálfaði norska kvennalandsliðið á árunum 1994 til 2008 og vann alls þrettán verðlaun með liðinu, sex gull, fimm silfur og tvö brons.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×