Strákar í NBA-deildinni halda áfram að gera það gott utan vallar. Nú síðast Sean Williams, leikmaður New Jersey Nets, sem var handtekinn í farsímabúð í Denver eftir að hann missti stjórn á skapi sínu.
Williams lenti í rifrildi við afgreiðslumann í búðinni sem endaði með því að Williams tók upp tölvuskjá og grýtti honum í gólfið með látum.
Skjárinn eyðilagðist að sjálfsögðu en Williams tókst í öllum látunum að skemma einn prentara líka.
Leikmaðurinn spilaði ekki með Nets í nótt vegna málsins og ekki er ljóst hvort hann fer heim með liðinu eða þarf að klára sín mál í Denver fyrst.