Skoðun

Hugmyndafræðin

Þorsteinn Pálsson skrifar
Stóra spurningin er þessi: Er það í raun og veru svo að þetta hugmyndafræðilega gap skilji flokka og kjósendur að? Margt bendir til að svo sé ekki í þeim mæli sem gefið er í skyn.

Skýrasta vísbendingin lýtur að norræna velferðarhugtakinu. Við myndun ríkisstjórnarinnar var það gert að eins konar tákni um afgerandi pólitísk umskipti. Það var kynnt sem nýjung í íslenskri pólitík. Í því var ennfremur fólgið mikið fyrirheit um að nú ætti að færa þjóðfélagið frá hægri til vinstri.

Þegar betur er að gáð er norræna velferðarkerfið málamiðlun ólíkra stjórnmálaflokka sem í tímans rás hafa færst nær miðjunni. Hér á Íslandi varð Sjálfstæðisflokkurinn til að mynda miklu stærri en hægriflokkar á Norðurlöndum fyrir þá sök að Ólafur Thors gerði strax í öndverðu innanflokks málamiðlun milli athafnafrelsis og velferðar að norrænum hætti.

Þegar ríkisstjórnin kynnti norræna velferðarhugtakið til sögunnar sem nýmæli hefðu forystumenn Sjálfstæðisflokksins því allt eins getað sagt: Eins og talað út úr okkar hjarta. Með öðrum orðum: Það er löngu liðin tíð að norræna velferðarhugtakið sé merkimiði til vinstri. Þvert á móti: Það hefur í áratugi verið ímynd sameiningar en ekki sundrungar í íslenskum stjórnmálum.

Annað dæmi um pólitíska samloðun: Við stjórnarmyndunina féllust forystumenn VG á að gera endurreisnaráætlunina sem Sjálfstæðisflokkurinn vann með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að grundvelli stefnunnar í efnahags- og ríkisfjármálum. Atburðir síðustu vikna benda að vísu til að óvíst sé að bakland VG hafi úthald til að bregða í svo veigamiklum atriðum frá grundvallarstefnu flokksins.

Á hinn veginn sýnir sú staðreynd að forystumenn VG gengust inn á þennan grundvöll að hugmyndafræðilega gjáin í íslenskum stjórnmálum er ekki jafn djúp og breið og virðist við fyrstu sýn. Þeirri ímynd er haldið á lofti fremur til að treysta völd en að ryðja framfaramálum braut.

 




Skoðun

Sjá meira


×