Phil Jackson, þjálfari LA Lakers, mun ákveða sig í næsta mánuði hvort hann klárar lokaárið á samningi sínum við NBA-meistarana. Ákvörðun snýst að mörgu leyti um heilsufar hans.
Jackson hefur þurft að láta skipta um báðar mjaðmirnar í sér og þolir ekki eins mikið og áður.
Einn möguleiki sem hefur verið ræddur er að Jackson sleppi mörgum útileikjum liðsins. Aðstoðarþjálfarinn Kurt Rambis myndi þá vera með liðið í útileikjunum. Jackson segir þó nauðsynlegt að fara í einhverja af útileikjunum til að missa ekki stjórnina.
Jackson er sigursælasti þjálfari í sögu NBA-deildarinnar en hann er nýbúinn að vinna sinn tíunda titil. Það hefur engum öðrum tekist.