Steve Nash er viss um að fyrrum félagi hans hjá Phoenix Suns, Shaquille O'Neal, komi til með að standa sig vel við hliðina á LeBron James hjá Cleveland Cavaliers.
Phoenix skipti Shaq til Cleveland í sumar og nú mun hinn 37 ára gamli miðherji reyna að hjálpa LeBron James að vinna sinn fyrsta meistaratitil.
„Hann gerir sér alveg grein fyrir því að hann er ekki á hápunkti ferils síns. O'Neal er ennþá frábær leikmaður en allt byggist þetta á LeBron. Ég held að Shaq sé ánægður með það enda mun hann örugglega fá sinn hluta af sviðsljósinu," sagði Nash sem var að framlengja samning sinn við Phoenix til ársins 2012.