Þrálátur orðrómur hefur verið í gangi í fjölmiðlum í Boston í dag um að framherjinn Kevin Garnett muni ætla að spila í sjöunda leik liðsins gegn Chicago annað kvöld.
Garnett er meiddur á hné og ekki er reiknað með því að hann geti komið við sögu í úrslitakeppninni, jafnvel þó liðið fari alla leið í lokaúrslitin í júní.
Danny Ainge, forseti Boston Celtics, fann sig knúinn til að slá þennan áhugaverða orðróm út af borðinu í samtali við Boston Globe nú síðdegis.
"Ég á ekki von á að sjá hann spila meira á leiktíðinni," sagði Ainge.
Oddaleikur Boston og Chicago fer fram í Boston á miðnætti annað kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Einvígi liðanna hefur verið stórkostlegt og hafa sjö framlengingar litið dagsins ljós í rimmunni, sem er NBA met.
Í kvöld verður sjötti leikur Miami Heat og Atlanta Hawks sýndur beint á Stöð 2 Sport á miðnætti. Þar hefur Atlanta yfir 3-2 og getur klárað einvígið.