Jón Arnór Stefánsson hefur gengið frá samningi við ítalska úrvalsdeildarliðið Benetton Treviso sem gildir í einn mánuð.
Þetta kemur fram á heimasíðu KR og segir Jón Arnór þar að hann muni halda utan strax á mánudaginn.
Jón Arnór lék sem kunnugt er með Lottomatica Roma og Napoli á Ítalíu og er þetta því þriðja liðið sem hann leikur með þar í landi.
Jón Arnór mun spila með liðinu í síðustu tveimur deildarleikjunum og svo í úrslitakeppninni. Liðið er sem stendur í sjötta sæti deildarinnar og er ágætur möguleiki á því að það mæti einmitt Lottomatica Roma í úrslitakeppninni.
Treviso Benetton varð síðast Ítalíumeistari árið 2006 og bikarmeistari árið 2007.
Jón Arnór varð Íslandsmeistari með KR nú í vetur og var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar.