Jákvæðar afkomutölur bandarískra tæknifyrirtækja á borð við Apple og IBM hífðu hlutabréfamarkað vestanhafs upp í fyrradag eftir skell daginn áður þegar S&P 500-hlutabréfavísitalan féll um rúm fimm prósent.
Menn eru almennt sammála um að skipan Timothys Geithners í stöðu fjármálaráðherra í nýrri ríkisstjórn Baracks Obama og boðaðar björgunaraðgerðir hafi ýtt undir bjartsýni í röðum fjárfesta til skemmri tíma litið.
Hagnaður Apple nam 1,6 milljörðum dala, jafnvirði 200 milljarða króna, á síðasta ársfjórðungi, sem er sá fyrsti í bókum Apple. Þetta er 30 milljónum dölum meira en árið á undan og þvert á spá Bloomberg-fréttaveitunnar um samdrátt upp á 21 prósent. Þá rufu tekjurnar tíu milljarða múrinn og hafa aldrei verið meiri í sögu fyrirtækisins.
Þá nam hagnaður IBM 4,4 milljörðum dala á fjórðungnum, sem er 57 prósenta aukning milli ára.
Gengi hlutabréfa í báðum fyrirtækjum rauk upp um meira en níu prósent og tóku þau önnur tæknifyrirtæki með sér í uppsveiflunni. Við það fór S&P-vísitalan upp um rúm fjögur prósent. - jab
Apple blæs á svartsýnisspár
