Viðskipti innlent

Leggja til að Heiðar verði stjórnar­for­maður Ís­lands­banka

Árni Sæberg skrifar
Heiðar Guðjónsson hefur verið tilnefndur í stjórn Íslandsbanka.
Heiðar Guðjónsson hefur verið tilnefndur í stjórn Íslandsbanka. Vísir/Vilhelm

Tilnefningarnefnd Íslandsbanka hefur tilnefnt sjö í stjórn bankans, sem kjörin verður á hluthafafundi þann 19. janúar. Fimm þeirra eru þegar í stjórn bankans en lagt er til að Heiðar Guðjónsson, sem er stærsti einkafjárfestirinn í bankanum, og Margrét Pétursdóttir komi ný inn. Þá leggur tilnefningarnefndin jafnframt til að Heiðar verði kjörinn formaður stjórnar. Heiðar fór fyrir hópi fjárfesta sem kröfðust þess að hluthafafundur yrði haldinn og ný stjórn kjörin.

Í tilkynningu Íslandsbanka til Kauphallar segir að stjórn bankans hafi boðað til hluthafafundar bankans með tilkynningu 22. desember 2025. Fundurinn verði haldinn mánudaginn 19. janúar 2026, klukkan 16:00, á hótel Hilton Reykjavík Nordica, Suðurlandsbraut 2, 108 Reykjavík. Jafnframt sé gefinn kostur á rafrænni þátttöku á fundinum. Atkvæðagreiðsla á fundinum fari eingöngu fram með rafrænum hætti.

Ljóst er að ekki er rými fyrir alla hluthafa bankans á Nordica en ríflega 30 þúsund Íslendingar keyptu hluti í bankanum þegar ríkið seldi sig endanlega út úr honum.

Tvo út og tvö ný inn

Í tilkynningu segir að í samræmi við samþykktir bankans hafi bankinn starfandi tilnefningarnefnd sem hafi það hlutverk að tilnefna einstaklinga til stjórnarsetu á aðalfundi bankans, eða eftir atvikum á hluthafafundi þar sem stjórnarkjör er á dagskrá.

Tilnefningarnefnd Íslandsbanka leggi til að eftirtaldir einstaklingar verði kjörnir í stjórn Íslandsbanka hf. á hluthafafundi bankans:

  • Haukur Örn Birgisson
  • Heiðar Guðjónsson
  • Helga Hlín Hákonardóttir
  • Margrét Pétursdóttir
  • Stefán Pétursson
  • Stefán Sigurðsson
  • Valgerður Hrund Skúladóttir

og eftirtaldir einstaklingar verði kjörnir í varastjórn bankans:

  • Herdís Gunnarsdóttir
  • Magnús E. Björnsson

„Tilnefningarnefnd leggur jafnframt til að Heiðar Guðjónsson verði kjörinn formaður stjórnar.“

Tilnefningarnefndin leggur þannig til að Heiðar og Margrét komi ný inn í stjórnina fyrir þau Lindu Jónsdóttur, fráfarandi stjórnarformann, og Agnar Tómas Möller. Linda greindi frá því nýverið að hún myndi ekki sækjast eftir endurkjöri í stjórn.

„Hvaða sirkus er þetta?“

Heiðar Guðjónsson fjárfestir staðfesti á dögunum háværan orðróm um að hann stefndi á framboð til stjórnar Íslandsbanka. Hann sagðist hafa fundist vanta tilfinnanlega rödd hluthafa inn í stjórn bankans og tók sem dæmi síðasta hluthafafund, þar sem aðeins einn hluthafi tók til máls. „Hvaða sirkus er þetta?“ sagðist hann hafa spurt sig á fundinum.

Greint var frá því þann 8. desember að hópur hluthafa í Íslandsbanka hefði krafist hluthafafundar og stjórnarkjörs í krafti rúmlega fimm prósenta eignarhlutar í bankanum.

Daginn eftir greindi Innherji frá því að Heiðar færi fyrir hópnum og að hann freistaði þess að komast í stjórn bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×