Bakvörðurinn ungi Brandon Roy hjá Portland Trailblazers í NBA deildinni fær ekki dónaleg ummæli frá einum besta varnarmanni deildarinnar, Ron Artest hjá Houston Rockets.
Artest og félagi hans Shane Battier hjá Houston hafa skipt með sér verkum í að dekka Roy í einvígi liðanna í úrslitakeppninni, þar sem Houston hefur yfir 3-2.
Artest og Battier eru tveir af bestu varnarmönnum deildarinnar og annar þeirra er alltaf límdur við Roy þegar hann er inni á vellinum.
"Roy er beist leikmaður sem ég hef mætt. Hann er besti skotbakvörðurinn í deildinni. Hann vantar enn nokkuð í land í varnarleiknum, en hann er besti leikmaður sem ég hef spilað á móti," sagði Artest í viðtali á TNT sjónvarpsstöðinni.
Hann var spurður að því hvort þetta þýddi að Roy væri betri sóknarmaður en Kobe Bryant og LeBron James. "Hann er sá besti sem ég hef spilað á móti," ansaði Artest.
Sjötti leikur liðanna í úrslitakeppninni fer fram í Houston í nótt klukkan 1:30 eftir miðnætti og verður sýndur beint á NBA TV sjónvarpsstöðinni. Þar getur Houston tryggt sér sæti í næstu umferð með sigri.
Þá er rétt að minna á að sjötti leikur Chicago og Boston verður sýndur beint á Stöð 2 Sport klukkan 23:00 í kvöld, en þar getur Boston tryggt sig í aðra umferðina með sigri.
Orlando getur líka tryggt sig í aðra umferð með sigri á Philadelphia á útivelli, en Orlando er yfir 3-2 í einvíginu.
Orlando verður án þeirra Courtney Lee og Dwight Howard í leiknum í kvöld. Howard tekur út leikbann og Lee er meiddur.