Handbolti

Ísland með ellefu marka forystu á Noreg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson verður ekki með Íslandi gegn Eistlandi um helgina.
Guðjón Valur Sigurðsson verður ekki með Íslandi gegn Eistlandi um helgina. Mynd/Stefán
Þökk sé myndarlegum sigri á Makedóníu í dag stendur Ísland vel að vígi fyrir baráttuna við Noreg um toppsæti riðilsins.

Liðin sem verða í tveimur efstu sætunum í hverjum riðli komast áfram í úrslitakeppni EM sem fer fram í Austurríki á næsta ári.

Hins vegar skiptir máli upp á styrkleikaröðun þegar dregið verður í riðla í úrslitakeppninni hvort Ísland verði í fyrsta eða öðru sæti riðilsins. Verði Ísland efst má búast við því að það verði í efsta styrkleikaflokki, annars í öðrum flokki.

Ísland og Noregur tryggðu sér bæði farseðilinn til Austurríkis í dag. Ísland með sigri á Makedóníu, 34-26, og Norðmenn með sigri á Eistum á heimavelli, 31-23.

Ísland og Noregur eru því efst og jöfn í riðlinum með tólf stig. Ísland mætir Eistum ytra á sunnudaginn í lokaumferð riðlakeppninnar og Norðmenn fara í heimsókn til Makedóníu.

Ef Íslendingar og Norðmenn verða enn jafnir að stigum eftir lokaumferðina ræður heildarmarkatala hvort liðið verður ofar í töflunni. Þar stendur Ísland betur að vígi - er með 52 mörk í plús en Noregur 41.

Fyrirfram má búast við því að Ísland eigi auðveldari leik fyrir höndum en Norðmenn í lokaumferðinni og því er staða liðsins orðin ansi vænleg. Sigurinn á Makedóníu í dag var því ekki aðeins mikilvægur til að koma liðinu á EM heldur einnig upp á baráttuna um toppsæti riðilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×