Denver tryggði sér í nótt sæti í undanúrslitum NBA deildarinnar í fyrsta sinn í aldarfjórðung. Það er ekki síst að þakka sigurvegaranum Chauncey Billups sem liðið fékk frá Detroit í skiptum fyrir Allen Iverson í nóvember í fyrra.
Billups er fæddur og uppalinn í Denver og hann var ekki lengi að setja sinn stimpil á liðið þegar hann kom aftur í heimabæinn.
Billups er nú að gera nokkuð sem fáir hafa afrekað, því þetta er sjöunda árið í röð sem þessi magnaði leikstjórnandi fer fyrir liði sínu alla leið í undanúrslit deildarinnar.
Billups fór sex ár í röð í úrslit Austurdeildar með Detroit Pistons og er nú kominn jafnlangt með Denver þar sem liðið mætir annað hvort LA Lakers eða Houston um sæti í lokaúrslitum deildarinnar.
Billups er aðeins fjórði leikmaðurinn frá árinu 1970 sem spilar í undanúrslitunum sjö ár í röð. Hinir þrír léku allir með LA Lakers á sínum tíma.
Þetta voru þeir Kareem Abdul-Jabbar, Michael Cooper og Magic Johnson, sem fóru átta ár í röð í úrslit Vesturdeildar á árunum 1982-1989 og Kurt Rambis sem náði því sjö ár í röð (1982-88).