Handbolti

Markvörður norska liðsins ver boltann með berum lærunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Terese Pedersen, markvörður norska handboltalandsliðsins.
Terese Pedersen, markvörður norska handboltalandsliðsins. Mynd/AFP
Terese Pedersen, markvörður norska handboltalandsliðsins hefur vakið athygli á HM í Kína fyrir það að spila á stuttbuxum og stuttermabol sem er mjög óvanalegt fyrir markvörð í handbolta.

„Ég held að ég sé ekkert harðari af mér en hinar. Við erum allar hálfskrítnar," sagði Terese Pedersen í léttum tón við norska dagblaðið.

„Ég var áður bæði útileikmaður og markmaður og þurfti því alltaf að klæða mig í síðbuxurnar þegar ég fór í markið. Það var alltaf svo mikið vesen þannig að ég fór bara að fara á stuttbuxunum í markið," sagði Pedersen sem segir það trufli sig í dag þegar hún sé í síðubuxum í markinu.

Terese Pedersen stóð sig mjög vel á móti Kína í gær og varði meðal annars tólf skot Kínverjana í röð.

„Ég finn alveg fyrir skotunum en ég er búinn að vera markvörður síðan ég var tíu ára þannig að ég er nú farin að venjast þessu," sagði Terese Pedersen en hún hefur varð 26 af 39 skotum sem hún hefur reynt við á HM í Kína sem er 53 prósent markvarsla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×