Michael Jordan var tekinn inn í Frægðarhöll bandaríska körfuboltans á föstudagskvöldið og hélt við það tækifæri mikla ræðu þar sem að hann fór yfir ferill sinn og það fólk sem hefur haft mest áhrif á sig.
Jordan stóðst þó ekki mátið og skaut föstum skotum að Jerry Krause, fyrrum framkvæmdastjóra Chicago Bulls, en það fer víst ekkert betur á með þeim í dag en á árunum áður þegar upp úr sauð á milli þeirra.
Krause lét hafa það eftir sér einu sinni að það væru félög sem vinna titla en ekki leikmennirnir. Hann hefur reyndar neitað því að hafa sagt þetta en þetta eru engu að síður líklega frægustu ummæli hans. Þau fóru líka illa í Jordan sem talaði um þau í ræðu sinni á föstudagskvöldið.
„Jerry er ekki hér enda veit ég ekki hver ætti að bjóða honum. Ekki bauð ég honum," byrjaði Jordan og bætti síðan við:
„Hann er mikill keppnismaður og ég var mikill keppnismaður. Hann sagði að það væru félög sem vinna titla. Ég sá þó ekkert félag spila með flensu og 39 stiga hita í Utah og ég sá ekkert félag spila með tognaðan ökkla," sagði Jordan og það eru örugglega flestir sem eru sammála honum.