Stórstjarnan Dwyane Wade hjá Miami Heat vísar á bug sögusögnum um að honum og Pat Riley forseti félagsins komi ekki saman.
Wade sendi stjórn félagsins skýr skilaboð í fjölmiðlum þegar hann sagði að styrkja þyrfti leikmannahópinn til muna við fyrsta tækifæri og það vantaði fleiri stór nöfn til félagsins.
En Riley svaraði honum með því að segja að Wade þyrfti fyrst að framlengja samning sinn við Miami, sem rennur út eftir komandi tímabil, áður en hægt væri að raða stjörnuleikmönnum í kringum hann.
„Ég og Riley erum í sama liði og viljum sömu hlutina. Við erum bara í ólíkum stöðum hjá félaginu og það er allt og sumt. Það er enginn ágreiningur á milli okkar," segir Wade í samtali við Miami Herald.