Körfubolti

Fisher og Ginobili glíma við meiðsli

Meiðsli Ginobili hafa sett strik í reikninginn fyrir meistara Spurs
Meiðsli Ginobili hafa sett strik í reikninginn fyrir meistara Spurs NordcPhotos/GettyImages

Þriðji leikur San Antonio Spurs og LA Lakers í úrslitum Vesturdeildarinnar í NBA verður sýndur beint á Stöð 2 Sport klukkan hálfeitt í nótt. Þar þurfa meistararnir nauðsynlega á sigri að halda á heimavelli sínum eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum í Los Angeles.

Manu Ginobili, einn besti leikmaður San Antonio, glímir við erfið ökklameiðsli og hefur verið skugginn af sjálfum sér í fyrstu tveimur leikjunum. Hann var slakur í öðrum leiknum í Los Angeles í fyrrakvöld, en þá kom til greina að hann kæmi jafnvel ekki við sögu vegna meiðsla sinna.

Leikstjórnandinn Derek Fisher hjá Lakers er sjálfur meiddur á fæti, en hann á ekki von á því að Argentínumaðurinn láti ökklameiðsli á sig fá í þriðja leiknum í nótt.

"Ginobili er leikmaður sem getur breytt leik hvenær sem er og hefur gert það með Spurs undanfarin ár. Það er því óneitanlega betra fyrir okkur ef hann er ekki á fullum styrk. Hann á þó örugglega eftir að spila betur í kvöld. Við eigum í það minnsta von á því," sagði Fisher.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×