Málið hófst á fimmtudaginn þegar rúmlega 60 kíló af eiturlyfjum; 1.800 e-töflur, fjórtán kíló af e-töfludufti og 45 kíló af amfetamíndufti, voru gerð upptæk í skútu í Fáskrúðsfjarðarhöfn. Rannsókn lögreglu hér á landi og erlendis hafði þá staðið yfir síðan í fyrra.
Guðbjarni Traustason og Alvar Óskarsson, sem báðir eru 25 ára, voru handteknir um borð í skútunni en Bjarni Hrafnkelsson, 35 ára, og Einar Jökull Einarsson, 27 ára, voru handteknir á heimilum sínum á höfuðborgarsvæðinu. Þessir fjórir menn hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 18. október líkt og Íslendingurinn í Færeyjum, sem handtekinn var með tvö kíló af amfetamíni í fórum sínum í nágrenni Þórshafnar, höfuðstaðar Færeyja.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins neitaði Guðbjarni með öllu að tjá sig þegar lögreglan ætlaði að taka skýrslu af honum á laugardag þar sem Brynjar Níelsson, lögmaður hans, var ekki á landinu.

Lögreglan hefur til þessa varist allra frétta af því hvaða þætti málsins þýsk og hollensk lögregluyfirvöld hafa verið að rannsaka með íslenskum lögreglumönnum. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er efnið sem flutt var hingað til lands talið vera upprunnið, það er keypt, í þessum tveimur löndum.