The Cavern Club, klúbburinn þar sem Bítlarnir tróðu upp í upphafi ferils síns, hélt nýverið upp á fimmtugsafmæli sitt.
Klúbburinn var opnaður í Liverpool árið 1957 sem djassstaður en hann varð ekki frægur fyrr en Bítlarnir fóru að spila þar í byrjun sjöunda áratugarins. Fyrstu tónleikar þeirra á staðnum voru í hádeginu árið 1961 en reyndar höfðu bæðið John Lennon og Paul McCartney spilað þar áður með hljómsveitinni The Quarry-men. Ekki leið á löngu þar til plötusalinn Brian Epstein uppgötvaði þá í klúbbnum og eftir það fóru hjólin að snúast hjá Bítlunum.
Systir John Lennon, Julia, starfar á klúbbnum og segir hún að Lennon hafi fundið sig vel á þar. „John leið eins og alvöru rokkara uppi á sviðinu. Hann var alltaf fúll yfir því að hljómsveitin var hreinsuð upp, klædd í jakkaföt og rifin úr leðurklæðnaðinum," sagði Julia.
Talið er að Ringo Starr hafi einnig átt frumraun sína í klúbbnum með The Eddie Clayton Skiffle Group á sjötta áratugnum.