Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækisins HB Granda nam rúm einum og hálfum milljarði króna á þriðja ársfjórðungi ársins samkvæmt uppgjöri sem birt er á vefsíðu Kauphallar Íslands. Er það nærri milljarði meiri hagnaður en á sama tíma í fyrra en þá nam hagnaðurinn 585 milljónum. Hins vegar er tap fyrirtækisins á fyrstu níu mánuðum ársins rúmlega milljarður en ríflega 900 milljóna króna hagnaður varð af rekstri fyrirtækisins á sama tíma í fyrra.
Rekstartekjur á þriðja ársfjórðungi jukust um rúman fjórðung milli ára og skýrist það fyrst og fremst af hærra afurðaverði í erlendri mynt og veikara gengi íslensku krónunnar.
Heildareignir HB Granda nema nú tæpum 30 milljörðum en félagið rekur fimm frystitogara, fjóra ísfisktogara, fjögur uppsjávarveiðiskip og eitt uppsjávarfrystiskip. Á þriðja ársfjórðungi 2006 var heildarbotnfiskafli skipa félagsins um 13 þúsund tonn og heildaruppsjávarafli um 24 þúsund tonn.