Tony Pulis, knattspyrnustjóri Stoke, segir að gott gengi liðsins á síðustu vikum megi að stóru leyti þakka þeim stuðning sem Peter Coates, stjórnarformaður félagsins, hefur sýnt honum. Coates tók sem kunnugt við af íslensku fjárfestunum fyrir tímabilið í ár og segir Pulis að starfsumhverfi félagsins hafi verið allt annað í vetur.
"Peter hefur spilað stórt hlutverk í viðsnúningi Stoke á þessari leiktíð og er að byggja upp nýtt lið frá grunni. Hans viðhorf er eins gott og ég hefði best getað ímyndað mér," sagði Pulis, sem var rekinn á sínum tíma af íslensku stjórnarmönnum félagsins. Hann var hins vegar fenginn aftur til liðsins í sumar og undir hans stjórn hefur leikmannahópurinn styrkst nokkuð og hefur gengi liðsins síðustu vikur verið með miklum ágætum.