Kvikmyndaleikstjórinn og körfuboltaáhugamaðurinn Spike Lee hefur nú lokið tökum á nýjustu auglýsingaherferð fyrir nýja Converse-skó sem Dwyane Wade hjá Miami Heat mun nota á næsta tímabili. Wade var kjörinn verðmætasti leikmaður lokaúrslitanna í NBA í sumar þegar lið Miami vann meistaratitilinn.
Yfirskrift auglýsingarinnar er "Dettu sjö sinnum - stattu upp átta sinnum" og segir Wade að hann hafi verið orðinn leiður á því að horfa á sömu skóauglýsinguna aftur og aftur í sjónvarpi og hafi því tekið því fagnandi þegar Lee var fenginn til að leikstýra verkefninu.
"Hver er ekki orðinn hundleiður á að sjá alltaf sömu troðsluna eða sömu hreyfinguna í þessum auglýsingum. Ég vildi eitthvað aðeins öðruvísi og það eina sem fólk sér í þessari auglýsingu er ég - D-Wade," sagði þessi frábæri leikmaður.