Leikstjórnandinn Gary Payton hefur efnt loforð sitt frá því í vor og hefur nú framlengt samning sinn við NBA meistara Miami Heat um eitt ár. Payton fær aðeins rúma milljón dollara í árslaun fyrir samninginn og segist vilja vinna annan titil með liðinu áður en hann leggur skóna á hilluna.
Payton er 38 ára gamall og löngu kominn af léttasta skeiði, en hann átti þó stóran þátt í að tryggja Miami sigur í tveimur af leikjunum fjórum sem liðið vann gegn Dallas í lokaúrslitunum í vor. Samningur Payton þýðir að allir leikmennirnir sem voru í hópnum hjá Miami í lokaúrslitunum í vor snúa aftur næsta vetur - þar á meðal þjálfarinn Pat Riley.