Sport

Blikastúlkur í víkíng

Gréta Mjöll Saúelsdóttur fellur í teignum í leik gegn Val á dögunum.
Gréta Mjöll Saúelsdóttur fellur í teignum í leik gegn Val á dögunum. MYND/Daníel

Íslands- og bikarmeistarar Breiðabliks í kvennafótboltanum halda nú um verslunarmannahelgina til Austurríkis þar sem liðið mun taka þátt í Evrópukeppni félagsliða.

Þetta er í annað sinn sem Breiðablik tekur þátt í Evrópukeppni félagsliða kvenna en keppnin fór fyrst fram árin 2001/2002. Þrátt fyrir það er þetta í þriðja sinn sem Breiðablik öðlast þátttökurétt en liðið tók ekki þátt haustið 2001 þar sem margir af bestu leikmönnum þess voru farnir erlendis til náms.

Breiðablik tekur þátt í fyrstu umferð keppninnar dagana 6.-14. ágúst en leikið verður í Neulengbach í Austurríki. Blikastúlkur munu leika í þriðja riðli ásamt meisturunum frá Norður-Írlandi, Newtownabbey Strikers, Dezembro frá Portúgal, auk austurrísku meistaranna og gestgjafanna SV Neulengbach.

Guðmundur Magnússon þjálfari Íslandsmeistaranna telur góðar líkur á að árangur náist og ætlar sér og sínum stúlkum sigur í riðlinum.

Leikið verður í níu riðlum þar sem sigurvegarar hvers riðils fara áfram í aðra umferð sem fer fram dagana 12.-17. september. Í annarri umferð eru riðlarnir fjórir og komast tvö efstu lið úr hverjum riðli í fjórðungsúrslit. Þegar hefur verið dregið í þá riðla og er ljóst að ef Breiðablik sigrar í Austurríki þá leikur liðið gegn meisturum Frankfurt auk sigurvegara í riðlum 4 og 5 en þar leika m.a. lið frá Finnlandi og Ítalíu. Úrslitaleikurinn verður í apríl 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×