Verðmætasti leikmaður NBA-úrslitanna í vor, Dwyane Wade hjá Miami, hefur framlengt samning sinn við félagið um þrjú ár líkt og LeBron James hjá Cleveland gerði á dögunum. Flestir bjuggust við að Wade skrifaði undir fimm ára samning, en líta má á samningur þessi sé langtímafjárfesting fyrir leikmanninn.
Samningurinn er upp á þrjú ár með möguleika á því fjórða, en ekki er ljóst hve mikinn pening hann fær fyrr en reglur um launaþakið verða á hreinu fyrir næsta ár. Búist er við að upphæðin sem Wade tryggir sér með nýja samningnum sé í kring um 63 milljónir dollara, en þess má til gamans geta að Wade verður "aðeins" með 3,83 milljónir dollara í árslaun á næsta tímabili - sem eru smáaurar í NBA deildinni.