Úrvalsdeildarfélagið Tottenham bíður nú eftir niðurstöðum úr rannsóknum sem verið er að gera á matvælum á Marriott-hótelinu í London, þar sem tíu leikmenn liðsins veiktust af því sem talið er hafa verið matareitrun skömmu fyrir leikinn mikilvæga gegn West Ham í gær. Ekki er útilokað að félagið fari í mál við hótelið ef sýnt þykir að maturinn á hótelinu hafi verið skemmdur.
Martin Jol þjálfari Tottenham segir félagið ekki ætla að fara þess á leit við enska knattspyrnusambandið að leikurinn verði spilaður upp á nýtt, en hann hefur staðfest að aðeins fjórir af leikmönnum liðsins hafi verið í standi til að spila leikinn í gær, þeir Jermain Defoe, Anthony Gardner, Paul Robinson og Stephen Kelly.